Íslenski boltinn

Þorvaldur: Vorum líklegir til þess að skora fleiri mörk

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Þetta er mikil ánægja og léttir," sagði Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Framara, eftir sigurinn gegn Selfyssingum í 17.umferð Pepsi-deildar karla í kvöld. Leiknum lauk með 3-1 sigri Framara, en þeir unnu síðast leik 25. júlí gegn Breiðablik.

„Í stöðunni 1-0 fyrir okkur þá fannst mér við hafa öll tök á leiknum , en síðan datt botnið úr spilinu hjá okkar og þeir fóru að pressa mikið á okkur sem endaði með marki Selfyssinga," sagði Þorvaldur.

„Eftir jöfnunarmark Selfyssinga kemur smá skjálfti í liðið og það tók smá tíma fyrir liðið að átta sig á hlutunum. Síðan náum við að skora annað markið og þá fannst mér sigurinn aldrei í hættu."

„Eftir þriðja markið þá fannst mér við mjög líklegir til þessa að bæta jafnvel við því fjórða, en það hafðist ekki. Ég er virkilega ánægður með leik minna manna hér í kvöld," sagði Þorvaldur.

Framarar mæta Stjörnunni í næstu umferð, en Þorvaldur er tilbúin að taka upp í spariskónna fyrir þann leik.

„Okkur hlakkar bara til að mæta Stjörnunni. Við verðum bara að fara í spariskónna, taka takkana af og spila okkar leik," sagði Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Framara, eftir sigurinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×