Íslenski boltinn

Gunnlaugur: Orðið gríðarlega erfitt að velja liðið

Elvar Geir Magnússon skrifar
Gunnlaugur Jónsson.
Gunnlaugur Jónsson.

„Mér fannst við vera undir á flestum sviðum í kvöld," sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari Vals, eftir 3-1 útisigurinn á 1. deildarliði Víkings R. í kvöld. Framlengingu þurfti til að skera út um úrslitin.

„Það komu ágætis kaflar en þeir voru of fáir og mér fannst barátta liðsins ekki nægilega mikil. Það aðalsmerki sem við höfum verið að sýna í deildinni, við vorum ekki að fylgja því eftir. En við gáfumst ekki upp og lönduðum góðum sigri. Það komu tvö fín mörk í framlengingunni," sagði Gunnlaugur.

Það voru varamennirnir Viktor Unnar Illugason og Guðmundur Steinn Hafsteinsson sem skoruðu mörkin sem réðu úrslitum í framlengingunni. „Við gerðum fimm breytingar á liðinu frá síðasta leik. Það komu ferskir menn inn sem nýttu tækifærið og það sýnir enn og aftur að við höfum sterkan hóp og mikla breidd. Við höfum leikmenn sem geta komið inn og breytt gangi leiksins og þannig verður þetta að virka," sagði Gunnlaugur.

„Það er orðið gríðarlega erfitt að velja byrjunarliðið og bara hópinn í heild. Það er mikil samkeppni um sæti í liðinu en svo er bara spurning hvernig standið á mönnum verður fyrir næsta leik."

Reynir Leósson fór meiddur af velli snemma í seinni hálfleik í kvöld. „Ég held að þetta sé ekki alvarlegt. Reynir hefur verið í smá ströggli í byrjun móts og áður farið útaf í miðjum leik. Við vonum að hann verði orðinn klár á sunnudaginn," sagði Gunnlaugur

Hann á ekki óskamótherja fyrir átta liða úrslitin en dregið verður á föstudag. „Það er bara mín ósk að við fáum heimaleik. Við ætlum okkur lengra í þessu móti."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×