Íslenski boltinn

Umfjöllun: Erfið löndun Vals í Víkinni

Elvar Geir Magnússon skrifar
Úr leiknum í kvöld. Mynd/Valli
Úr leiknum í kvöld. Mynd/Valli

Mjög góð frammistaða Víkings gegn Val í kvöld dugði liðinu ekki til sigurs. Valur vann 3-1 útisigur í framlengdum bikarslag og er liðið því komið í átta liða úrslit keppninnar.

Víkingar leika í 1. deildinni en voru síst lakari aðilinn í leiknum í kvöld. Sérstaklega í seinni hálfleiknum þar sem þeir réðu lögum og lofum gegn værukærum Valsmönnum.

Varamennirnir Viktor Unnar Illugason og Guðmundur Steinn Hafsteinsson kláruðu leikinn fyrir Val í framlengingunni.

Víkingar byrjuðu leikinn betur og áttu hættulegri sóknir í upphafi leiks. Eftir því sem líða tók á hálfleikinn náðu Valsmenn betri tökum og Atli Sveinn Þórarinsson fékk sannkallað dauðafæri til að koma þeim yfir þegar hann fékk algjörlega frían skalla eftir horn en hitti ekki markið.

Hugur varnarmanna Víkings virðist hafa farið inn í búningsherbergi fyrr en aðrir því varnarleikur liðsins rétt fyrir hálfleik var arfadapur. Danni König slapp einn í gegn á 44. mínútu, Magnús Þormar markvörður fór í misheppnað úthlaup og König komst framhjá honum.

Þrátt fyrir að færið hafi verið orðið nokkuð þröngt náði König að skora, staðan 0-1. Hann hefði svo getað skorað annað mark rétt áður en málarinn Erlendur Eiríksson flautaði til leikhlés en brást þá bogalistin í verulega góðu skallafæri.

Í seinni hálfleik var jafnræði með liðunum en Víkingar voru þó talsvert hættulegri í sínum sóknaraðgerðum. Kantmaðurinn Viktor Örn Guðmundsson komst nálægt því að jafna þegar hann átti hörkuskot sem Kjartan Sturluson í marki Vals varði í stöngina.

Um stundarfjórðungi fyrir leikslok jöfnuðu heimamenn verðskuldað þegar Þorvaldur Sveinn Sveinsson skoraði með skalla eftir fáránlegt skógarhlaup hjá Kjartani markverði.

Staðan jöfn 1-1 eftir 90 mínútur og því framlengt. Sóknarmaðurinn Viktor Unnar Illugason hefur verið úti í kuldanum hjá Val í sumar en kom sér í aðeins meiri hlýju þegar hann kom Val yfir 2-1 í seinni hálfleik framlengingar.

Viktor hafði komið inn sem varamaður í framlengingunni og skoraði hann í kjölfarið á aukaspyrnu. Jón Vilhelm Ákason átti skot sem fór í stöngina en Viktor var vel vakandi og átti ekki í vandræðum með að skora.

Það var svo annar varamaður, Guðmundur Steinn Hafsteinsson, sem innsiglaði sigurinn eftir fyrirgjöf frá Jóni Vilhelm. Guðmundur Steinn hafði komið inn sem varamaður seint í venjulegum leiktíma.

Víkingur - Valur 1-3

0-1 Danni König (44.)

1-1 Þorvaldur Sveinn Sveinsson (76.)

1-2 Viktor Unnar Illugason (109.)

1-3 Guðmundur Steinn Hafsteinsson (120.)

Víkingur 4-5-1:

Magnús Þormar

Tómas Guðmundsson

Egill Atlason

(110. Marteinn Briem)

Milos Glogovac

(91. Milos Milojevic)

Sigurður Egill Lárusson

Þorvaldur Sveinn Sveinsson

Halldór Smári Sigurðsson

Dofri Snorrason

Viktor Örn Guðmundsson

(69. Kjartan Dige Baldursson)

Halldór Smári Sigurðsson

Jakob Spangsberg

Helgi Sigurðsson

Valur 4-3-3:

Kjartan Sturluson

Stefán Jóhann Eggertsson

Reynir Leósson

(57. Greg Ross)

Atli Sveinn Þórarinsson

Martin Pedersen

Haukur Páll Sigurðsson

Jón Vilhelm Ákason

Rúnar Már Sigurjónsson

Baldur Aðalsteinsson

Þórir Guðjónsson

(81. Guðmundur Steinn Hafsteinsson)

Danni König

(98. Viktor Unnar Illugason)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×