Íslenski boltinn

Guðmundur Reynir og Gunnar Örn kallaðir inn

Elvar Geir Magnússon skrifar
Gunnar Örn Jónsson er kominn í hópinn.
Gunnar Örn Jónsson er kominn í hópinn.

Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, hefur gert tvær breytingar á hópnum er mætir Færeyjum og Mexíkó í vináttulandsleikjum á næstu dögum.

Þeir Kristinn Jónsson úr Breiðabliki og Heimir Einarsson úr ÍA geta ekki verið með vegna meiðsla. Í staðinn hafa verið valdir þeir Guðmundur Reynir Gunnarsson og Gunnar Örn Jónsson, báðir úr KR. Bætist þar með fimmti nýliðinn í hópinn í Gunnari Erni Jónssyni.

Ísland og Færeyjar mætast í vináttulandsleik í Kórnum á sunnudaginn og hefst leikurinn kl. 12:00. Ekki verður forsala fyrri leikinn en miðasala hefst í Kórnum kl. 11:00 á leikdag.

Miðaverð er kr. 1.000 fyrir fullorðna, 17 ára og eldri en frítt er inn fyrir börn 16 ára og yngri.

Þetta er þriðja árið í röð sem að þjóðirnar leika vináttulandsleik í Kórnum í marsmánuði. Þegar þjóðirnar áttust við í mars í fyrra höfðu frændur okkar betur með tveimur mörkum gegn einu.

Árið 2008 léku þjóðirnar fyrsta karlalandsleikinn sem leikinn var innanhúss hér á landi og sigruðu þá Íslendingar með þremur mörkum gegn engu.

Þar sem ekki er um alþjóðlegan leikdag að ræða er íslenski hópurinn að langmestu skipaður leikmönnum sem leika hér á landi. Í Færeyska hópnum eru þrír leikmenn sem leikið hafa hér á landi með íslenskum félagsliðum, þeir: Fróði Benjaminsen og Símun Samuelsen úr HB og Rógvi Jacobsen úr ÍF.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×