Innlent

Undrandi sjálfstæðismenn í Kópavoginum

Gunnar Birgisson.
Gunnar Birgisson. MYND/Hrönn

Sjálfstæðismenn í Kópavogi eru undrandi yfir háum greiðslum bæjarins til handa fyrirtækis í eigu dóttur Gunnars I. Birgissonar bæjarstjóra. Sjálfur segist bæjarstjóri ekki óttast meirihlutaslit við framsóknarmenn, hann hafi ekkert til saka unnið.

Á annan tug framsóknarmanna í Kópavogi fundaði í gær vegna um fimmtíu milljóna króna greiðslna bæjarins til auglýsingafyrirtækisins Frjálsrar miðlunar sem er í eigu dóttur Gunnars I. Birgissonar. Greiðslurnar eiga að ná yfir tímabilið frá 2003-2008. Endurskoðandi Kópavogsbæjar vinnur nú að úttekt um greiðslur bæjarins til fyrirtækisins á þessum tíma og verður hún lögð fram innan tveggja vikna.

Bæði framsóknarmenn og sjálfstæðismenn í bæjarstjórn vildu lítið tjá sig við fréttastofu þegar leitað var eftir því. Málið virðist í biðstöðu þangað til úttektin verður lögð fram en framsóknarmenn útiloka ekki að meirihlutastarfi verði slitið. Þeir sjálfstæðismenn sem rætt var við virðast undrandi yfir þessum greiðslum og viðurkenna að enginn hafi áttað sig á hversu háar og umfangsmiklar þær væru. Þeir hafi ekki brugðist við vegna málsins enn sem komið en bíði niðurstöðu endurskoðanda.

Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri Kópavogs vildi lítið ekkert tjá sig um málið í morgun en segist einnig bíða eftir úttektinni. Hann segir árásir á sig og dóttur sína vera gerðar í hreinum pólitískum tilgangi til að sverta mannorð hans. Hann óttist ekki að framsóknarmenn slíti meirihlutasamstarfinu vegna þess máls því hann hafi ekkert til saka unnið.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×