Innlent

Sextíu sagt upp vegna boðaðra stjórnvaldsaðgerða

Ísafjörður. Mynd úr safni.
Ísafjörður. Mynd úr safni.

Verktakafyrirtækið KNH á Ísafirði hefur ákveðið að segja upp 60 af 84 starfsmönnum nú um næstu mánaðarmót en þetta kemur fram á heimasíðu Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Þar segir að KNH sendi starfsmönnum fyrirtækisins bréf fyrr í vikunni þar sem farið er yfir þá stöðu sem KNH stendur frammi fyrir. Ástæða uppsagnanna er sögð endurskipulagning á fyrirtækinu vegna nýtilkominna stjórnvaldsaðgerða í formi aukinnar skattpíningar og álögur á fyrirtæki ásamt algjöru verkefnafrosti.

KNH er stærsta fyrirtækið á Vestfjörðum í vega- og jarðvegsframkvæmdum og byggist starfsemi KNH nánast alfarið á þesskonar framkvæmdum.

Á heimasíðu verkalýðsfélagsins segir að á fundi með fulltrúum verkalýðsfélagsins, trúnaðarmanni og framkvæmdarstjóra fyrirtækisins, hafi komi í ljós að fyrirtækið sæi sér þann kost nauðugan að segja upp starfsfólki og fara í endurskipulagningu vegna boðaðra stjórnvaldsaðgerða.

Fyrirtækið sjái ekki fram á að geta haldið út óbreyttri starfsemi ef ekki verði farið í frekari vega- eða jarðvegsframkvæmdir fljótlega. Stjórnvöld verði að halda áfram með þau verkefni sem þegar séu tilbúinn til útboðs, annars sé grundvöllur fyrir rekstri fyrirtækisins í núverandi mynd brostinn að mati forsvarsmanna KNH.

Verkalýðsfélagið tekur undir með áhyggjum KNH manna og telur að í því árferði sem nú ríki stöndum nú frammi fyrir dugi ekki að draga úr opinberum framkvæmdum. Það er mat verkalýðsfélagsins að atvinnulífið þurfi á öflugri innspýtingu að halda til að getað haldið uppi öruggari atvinnu.

Þá gagnrýnir verkalýðsfélagið stjórnvöld harðlega og segir á heimasíðu félagsins:

„Sú ráðstöfun að draga úr opinberum framkvæmdum í kreppu er alveg þveröfugt við það sem þarf að gera. Í kreppu er opinberum aðilum nauðsynlegt að halda úti framkvæmdum. Þannig styðji stjórnvöld við atvinnulíf í landinu sem þegar standi höllum fæti."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×