Innlent

Stálu bílum og flatskjá af sofandi pari

Þjófarnir þurftu ekki að brjóta sér leið inn í húsið, heldur komust inn um glugga með rifu á. Heimilishundurinn þagði þunnu hljóði.
Þjófarnir þurftu ekki að brjóta sér leið inn í húsið, heldur komust inn um glugga með rifu á. Heimilishundurinn þagði þunnu hljóði.

Bíræfnir innbrotsþjófar fóru inn á heimili ungs pars í Hafnarfirði í fyrrinótt og höfðu meðal annars á brott með sér báða bíla þeirra á meðan fólkið var í fastasvefni.

„Ég áttaði mig ekki á þessu fyrr en þegar ég fann ekki bíllyklana mína þegar ég var að fara í vinnuna um morguninn,“ segir Ólafur Aron Haraldsson, 24 ára, sem býr ásamt 22 ára kærustu sinni í Ásahverfi í Hafnarfirði. „Þá tók ég eftir að bíllinn var ekki fyrir utan.“

Þegar Ólafur skoðaði sig betur um í íbúðinni sá hann að 42 tommu flatskjár var á bak og burt úr stofunni. Þá höfðu þjófarnir tekið veski hans og kærustunnar með öllum skilríkjum, alla lykla, úr og skólatösku, auk þess sem þeir kipptu með sér öllum fatnaði af þvottasnúrum – sumum hverjum dýrum tískuvörum.

Þjófarnir voru að öllum líkindum tveir eða fleiri, því þeir óku burt á báðum bílum fólksins, tíu ára gömlum Subaru Impreza og sjö ára Peugeot 206.

„Þeir voru þvílíkt kaldir,“ segir Ólafur, hissa á innbrotsþjófunum. „Það fór ekkert á milli mála að það var einhver heima í húsinu.“

Svo virðist sem þjófarnir hafi farið inn um fremur lítinn glugga á neðri hæð hússins, sem á var rifa, og hafi verið mjög hljóðlátir. Parið á lítinn silkiterríer-hund sem geltir á allt og alla, að sögn Ólafs. Hundurinn þagði hins vegar alla nóttina, sem bendir sterklega til þess að hann hafi ekki orðið þjófanna var og hafi sofið allt af sér.

Ólafur G. Emilsson, stöðvarstjóri lögreglustöðvarinnar í Hafnarfirði, segir innbrotið ekki einsdæmi síðustu daga. Ekki sé hægt að tala um faraldur, en þó hafi tvö önnur innbrot verið tilkynnt frá því á fimmtudag.

Í tveimur innbrotanna var farið inn í mannlaus hús um hábjartan dag og þaðan stolið ýmsum munum.

Ólafur segir ekki liggja fyrir hvort tengsl séu á milli innbrotanna þriggja, en innbrotin tvö um miðjan dag, á fimmtudag og í gær, hafi hins vegar verið ákaflega lík. Innbrotum af því tagi, þar sem farið sé inn í hús um miðjan dag þegar heimilisfólk er við vinnu, hafi fjölgað nokkuð að undanförnu.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA Silkiterríer hundur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×