Innlent

Leiga Félagsbústaða orðin sambærileg leigumarkaði

Meðalleiguverð hjá Félags­bústöðum og Leigulistanum á íbúðum í Reykjavík er orðið nokkuð sambærilegt. Minni íbúðir eru aðeins ódýrari hjá Félagsbústöðum, en stærstu íbúðirnar eru dýrari.

„Það gefur auga leið að ef markaðsaðstæður breytast með þeim hætti að Félagsbústaðir eru komnir á skjön við það sem þar er, þá eru full efni til að endurskoða forsendurnar fyrir leiguverði, að minnsta kosti á stærstu íbúðunum," segir Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna.

Rúmlega helmingur allra íbúða Félagsbústaða er eins til tveggja herbergja en einungis þrjú prósent eru fimm herbergi eða stærri.

Leiguverð hjá Félagsbústöðum er vísitölubundið og hækkar með aukinni verðbólgu. Verulegur þrýstingur er hins vegar á lækkun leiguverðs á almennum markaði og hefur leigan lækkað um 15-20 prósent að undanförnu, samkvæmt Guðlaugi Þorsteinssyni hjá Leigulistanum.

„Við höfum verið að biðja um þessar upplýsingar og reyna að gera okkur grein fyrir í hvað stefnir ef verðbólga verður hér áfram mjög há," segir Jórunn Frímannsdóttir, formaður Velferðarsviðs Reykjavíkur. Það sé áhyggjuefni ef leigan hækki umfram greiðslugetu leigjenda, en aðstoð vegna slíks verði alltaf í formi persónulegs stuðnings við þann sem er í miklum vanda.

Tæplega 890 eru á biðlista hjá Félagsbústöðum og hefur fækkað um sautján frá áramótum. „Ef almenni markaðurinn fer niður er það vel," segir Sigurður Friðriksson, framkvæmdastjóri Félagsbústaða. Hann bendir á að fyrir suma skipti öryggi búsetu hjá Félagsbústöðum miklu máli, en það sé ekki tryggt á almenna markaðnum. Frá árinu 2001, þegar húsnæðisverð hækkaði, hafi gegnumstreymið hjá Félagsbústöðum minnkað og biðlistar lengst. Hann á von á að þessi þróun breytist nú. - ghs, ss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×