Fótbolti

Í hvaða stöðu spilar Eggert á morgun?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eggert Gunnþór Jónsson í leik með Hearts.
Eggert Gunnþór Jónsson í leik með Hearts. Nordic Photos / Getty Images

Hearts mætir á morgun liði Hibernian í borgarslag Edinbourgh í skosku bikarkeppninni. Ljóst er að Eggert Gunnþór Jónsson verður í byrjunarliði Hearts en óljóst í hvaða stöðu.

Hearts tapaði um síðustu helgi fyrir Aberdeen í úrvalsdeildinni þar sem tveir leikmenn fengu að líta rauða spjaldið. Fyrst Maruis Zaliukas fyrir tvær áminningar og svo Lee Wallace eftir leik fyrir mótmæli.

Eggert var á varamannabekknum í leiknum sem er heldur óvanalegt en þar sem báðir eru varnarmenn verður að teljast líklegt að hann muni spila í vörninni á morgun, annað hvort í stöðu vinstri bakvarðar eða miðvarðar.

En þó er ekki útilokað að Eggert spili á miðjunni þar sem hann er vanur. Eggert hefur þó hingað til á tímabilinu spilað í báðum bakvarðarstöðum, sem miðvörður og miðvallarleikmaður.

„Leikmenn voru afar svekktir eftir leikinn en svona er boltinn bara," sagði Eggert í samtali við skoska fjölmiðla. „Ég tel að leikmenn eigi ekki við agavandamál að stríða. Það voru miklar tilfinningar í spilinu sem hefur sín áhrif."

Sjálfur fékk Eggert að líta rauða spjaldið í september síðastliðnum og segir að það hafi ekki orsakast af því að hann eigi við agavandamál að stríða. „Ég fór í tæklingu. Stundum er maður of seinn í tæklingar. Maður þarf bara að vita hvar draga eigi línuna. Maður verður að finna jafnvægið og ef það tekst er maður í góðum málum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×