Innlent

Síbrotamaður reyndi að innheimta húsaleiguskuld með kúbein að vopni

Dómsmál Hálffertugur síbrotamaður, Einar Örn Sigurðsson, hefur verið dæmdur í átján mánaða fangelsi fyrir ýmis hegningarlagabrot, meðal annars tilraun til handrukkunar.

Einar Örn knúði dyra á húsi við Framnesveg í maí í fyrra með kúbein að vopni í því skyni að innheimta húsaleiguskuld fyrir kunningja sinn. Í kjölfarið brutust út átök milli hans og íbúa hússins og hlaut fólkið minniháttar meiðsl af.

Í dómnum er brotið sagt ruddalegt og ófyrirleitið og hann sakfelldur fyrir það þrátt fyrir neitun sína.

Einar var einnig sakfelldur fyrir að brjótast inn í hús í Hafnarfirði og stela þar góssi fyrir vel á aðra milljón króna, stela úr bíl, hafa fíkniefni í fórum sínum og aka bíl í vímu.

Einar Örn hefur hlotið 30 refsidóma frá árinu 1990. Dómurinn var kveðinn upp á mánudag í Héraðsdómi Reykjavíkur. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×