Innlent

Virðið áttfaldaðist á tveimur árum

Grundarfjörður. Húsnæðið sem um ræðir brann í ágúst.
fréttablaðið/vilhelm
Grundarfjörður. Húsnæðið sem um ræðir brann í ágúst. fréttablaðið/vilhelm

Byggðastofnun seldi húsnæði í Grundarfirði, sem brann í lok ágúst í sumar, fyrir fimm milljónir í desember árið 2007. Síðasti eigandi þess, karlmaður sem nú situr í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglu á skipulagðri glæpastarfsemi, fékk nýverið tæplega fjörutíu milljónir króna út úr tryggingunum vegna brunans.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær eru meðal annars til rannsóknar hjá lögreglu meint tryggingasvik vegna þessa máls. Fyrirtæki mannsins keypti húsnæðið í janúar á þessu ári. Rannsókn lögreglu hefur meðal annars snúist um ástæður þess að brunabótamat húsnæðisins hefur hækkað um ríflega tíu milljónir króna frá árinu 2006, þegar það var í eigu Byggðastofnunar.

„Ég fór að skoða þetta húsnæði eftir að Byggðastofnun eignaðist það árið 2006 á nauðungarsölu," segir Hjalti Árnason, yfirmaður lögfræðisviðs Byggðastofnunar. „Þetta var eins konar skemma. Það var ekki mikil eign í þessu og að lokum seldum við hana ári seinna á fimm milljónir króna."

Umrætt húsnæði skipti svo tvívegis um eigendur en upp úr áramótum 2009 keypti fyrirtæki í eigu mannsins sem nú sætir gæsluvarðhaldi húsið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×