Innlent

Ítrekar að greiðslur Landsvirkjunar runnu til sveitarstjórnarmanna

Sigurður Jónsson, fyrrverandi sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Myndin er tekin af bloggsíðu Sigurðar.
Sigurður Jónsson, fyrrverandi sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Myndin er tekin af bloggsíðu Sigurðar.
Sigurður Jónsson, fyrrverandi sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, ítrekar fyrri orð sín um að Landsvirkjun hafi greitt sveitarstjórnarmönnum í hreppnum fyrir skipulagsvinnu. Í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag kveðst hann vera undrandi á því að núverandi oddviti hreppsins skuli blákalt halda öðru fram.

Fram hefur komið að Landsvirkjun greiddi fyrir fundarsetu sveitarstjórnarmanna í Flóahreppi og í Skeiða- og Gnúpverjahreppi um fyrirhugaðar virkjanir í hreppnum. Samgönguráðuneytið, sem fer með sveitarstjórnarmál, hefur úrskurðað að ákvæði í samningi Landsvirkjunar og Flóahrepps um að Landsvirkjun borgi fyrir skipulag, sé ólögmæt. Einnig að það standist ekki lög að Landsvirkjun standi straum af kostnaði við að gera aðalskipulag. Aðalskipulagið í Flóahreppi er á borði umhverfisráðherra og býður staðfestingar.

„Landsvirkjun greiddi sveitarsjóði meðal annar fyrir óbókaða fundi sveitarstjórnar sem var svo áfram greitt til kjörinna sveitarstjórnarmanna og fékk hver kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn 200 þúsund krónur. Það er því rangt sem oddviti heldur fram að einstaklingar hafi ekki fengið greiðsluna frá Landsvirkjun," segir Sigurður.


Tengdar fréttir

Landsvirkjun verði rannsökuð 15 ár aftur í tímann

Náttúruverndarsamtök Íslands telja brýnt að aðkoma Landsvirkjunar að ákvörðunum sveitarstjórna síðastliðin 10 til 15 ár um virkjanaframkvæmdir verði rannsakaðar í þaula. Samtökin hafa sent Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, bréf og vilja að hún hlutist til þannig að skipulagsbreytingar vegna virkjana í neðri Þjórsá verði gerðar ómerkar á grundvelli vanhæfis sveitarstjórnarmanna.

Greiðslur Landsvirkjunar til sveitarstjórnarmanna út úr kortinu

„Þetta lyktar ekki vel,“ segir formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands um greiðslur Landsvirkjunar til sveitarstjórnarmanna sem greint var frá í kvöldfréttum Stöðvar 2. „Mér finnst þetta vera út úr kortinu,“ segir formaðurinn.

Landsvirkjun braut lög með greiðslum

Landsvirkjun braut lög með því að greiða fyrir skipulagsvinnu Flóahrepps, vegna virkjana í Neðri-Þjórsá. Þetta kemur fram í úrskurði samgönguráðuneytisins. Samkvæmt úrskurðinum er engin heimild í lögum fyrir því að Landsvirkjun greiði sveitarfélögum fyrir vinnu við aðalskipulag.

Ummæli þingmanna niðurlægjandi

Sveitarstjórn Flóahrepps harmar niðurlægjandi ummæli einstakra þingmanna um sveitarstjórnarmenn í hreppnum vegna umræðu um greiðslur Landsvirkjunar vegna skipulagsvinnu í tengslum við fyrirhugaðar virkjanir.

Forstjóri Landsvirkjunar: Við brutum ekki lög

Samgönguráðuneytið hefur úrskurðað að Landsvirkjun hafi brotið lög með því að greiða fyrir skipulag vegna virkjana við Neðri-Þjórsá. Forstjóri Landsvirkjunar telur þetta nýja túlkun á lögum.

Landsvirkjun greiddi sveitarstjórnarmönnum fyrir skipulagsvinnu

Landsvirkjun greiddi fyrir fundarsetu sveitarstjórnarmanna í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, um fyrirhugaðar virkjanir í hreppnum. Hver sveitarstjórnarmaður fékk 200 þúsund krónur, segir fyrrverandi sveitarstjóri. Oddviti hreppsins staðfestir að hafa fengið greiðslur frá Landsvirkjun, í gegnum hreppinn, en er ósáttur við að vera sakaður um mútuþægni.

Ráðherra kallar eftir upplýsingum um mál Landsvirkjunar

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, mun á næstu dögum óska eftir frekari upplýsingum vegna skipulagstillögu Skeiða- og Gnúpverjahrepps, líkt og kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2. Það er gert í ljósi úrskurðar samgönguráðuneytisins um að Flóahreppi hafi ekki verið heimilt að semja við Landsvirkjun um greiðslu kostnaðar vegna skipulagsvinnu sveitarfélagsins vegna virkjana við Neðri-Þjórsá. Í samtali við fréttastofu sagðist Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, telja þetta vera nýja túlkun á lögum.

Flóahreppur fékk einnig greiðslur frá Landsvirkjun vegna skipulagsvinnu

Flóahreppur, hefur eins og Skeiða- og Gnúpverjahreppur, fengið greiðslur frá Landsvirkjun vegna skipulagsvinnu. Upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar segir að greiðslur til sveitarfélaganna séu að öllu í samræmi við lög og vísar því á bug að þær séu óeðlilegar.

Ekki mútugreiðslur

„Þarna er lítið sveitarfélag að takast á við gríðarlega stórt verkefni sem kostar mjög mikið og það er ekkert óeðlilegt að það sé farið fram á það við framkvæmdaaðila að hann greiði kostnað sem fellur á sveitarfélagið," segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, um greiðslur Landsvirkjunar til sveitarfélaga vegna fyrirhugaðra virkjana. Ekki sé um mútugreiðslur að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×