Innlent

Lögmenn kanna leiðir til sátta

Verði skuldamálum á hendur Imoni ekki vísað frá dómi líkt og farið er fram á má gera ráð fyrir að málareksturinn teygi sig eitthvað fram eftir næsta ári. Fréttablaðið/GVA
Verði skuldamálum á hendur Imoni ekki vísað frá dómi líkt og farið er fram á má gera ráð fyrir að málareksturinn teygi sig eitthvað fram eftir næsta ári. Fréttablaðið/GVA
Lögmenn taka sér þrjár vikur til að kanna hvort grundvöllur sé fyrir sáttum í fimm af sex skuldamálum sem gamli Landsbankinn hefur höfðað á hendur eignarhaldsfélaginu Imoni. Málflutningur vegna frávísunarkröfu sjötta og stærsta málsins fer fram um miðjan janúar.

Málin voru tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun. Haldið er uppi frávísunarkröfu í öllum málunum af hálfu lögmanns Imonar, en það er eignarhaldsfélag í eigu Magnúsar Ármann.

Málið sem tekið verður fyrir í janúar er það langstærsta í hópnum, en þar krefur Landsbankinn Imon um yfir fimm milljarða króna. Sú skuld varð til örfáum dögum fyrir hrun bankanna í fyrra þegar Imon tók lán í Landsbankanum fyrir kaupum á um fjögurra prósenta hlut í bankanum. Lánað var gegn veði í stofnfjárbréfum Imons í Byr sparisjóði.

Málin fimm sem frestað var og varða lægri upphæðir verða tekin fyrir dóm að nýju í byrjun desember þegar liggur fyrir niðurstaða viðræðna lögmanna Imons og Landsbankans.

Haft var eftir Geir Gestssyni, lögmanni Imons, í frétt blaðsins fyrir helgina, að ágreiningur væri um fjárhæð krafna og um verðmæti innleystra veða.- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×