Fótbolti

Fjórir vilja halda Evrópukeppnina árið 2016

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Henri Delaunay bikarinn er eftirsóttur.
Henri Delaunay bikarinn er eftirsóttur. Mynd/GettyImages

Fjórir aðilar sækjast eftir því að halda Evrópumótið í fótbolta eftir sjö ár en fresturinn að sækja um að halda keppnina rann út í gær. Evrópukeppnin 2016 verður tímamótakeppni því hún verður sú fyrsta þar sem 24 þjóðir komast í lokakeppnina.

Knattspyrnusamband Evrópu gaf það út í dag að Frakkland, Ítalía og Tyrkland hafi öll sótt um að halda EM og þá hefur einnig komið inn sameiginleg umsókn frá Svíþjóð og Noregi.

Í apríl mun UEFA gefa út þær kröfur sem verða settar á gestgjafa keppninnar og í framhaldinu þurfa að þessir fjórir aðilar að skila inn ítarlegu yfirliti yfir skipulag og framkvæmd þeirra fá þeir að halda Evrópukeppnina.

Möguleikar íslenska landsliðsins á að komast á EM hafa aukist mikið með fjölgun liða úr 16 í 24. Íslenska landsliðið gæti því hugsanlega komist þarna inn á sitt fyrsta stórmót gangi allt upp en karlalandsliðið hefur nokkrum sinnum verið nálægt því að komast í hóp 17 til 24 bestu þjóða Evrópu.

Framkvæmdarnefnd UEFA mun taka lokaákvörðun um leikstað í kringum 27. maí á næsta ári.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×