Erlent

Fjörutíu ár frá tunglferð Armstrongs og félaga

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna og Spiro Agnew varaforseti fagna með áhöfn Apollo 11. Mynd/ AFP.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna og Spiro Agnew varaforseti fagna með áhöfn Apollo 11. Mynd/ AFP.
Fjörutíu ár eru liðin í dag frá því að fyrstu geimfararnir gengu á tunglinu. Áhöfn geimfarsins Apollo 11 hvetur til þess að fleiri tilraunir verði gerðar til þess að senda mannað geimfar til Mars.

Áhöfnin kom saman á Loft- og geimferðasafninu um helgina til þess að fagna því að 40 ár eru liðin frá afreki þeirra. Neil Armstrong sem fór fyrir leiðangrinum á sínum tíma sagði við það tækifæri að tilraunir manna til að ferðast til tunglsins hefðu skapað heilbrigða samkeppni milli Bandaríkjamanna og fyrrum Sovétmanna. Tunglferðin hefði ef til vill átt sinn þátt í því að ekki fór verr í samskiptum ríkjanna tveggja á tímum kalda stríðsins.

Félagi Armstrongs, Buzz Aldrin, sagði að Apollo 11 minnti fólk á það hvað frábær þjóð og frábært fólk gæti gert ef það ynni saman og hefði leiðtoga sem byggju yfir metnaði og framtíðarsýn.

Eins og margir muna kom áhöfnin af Apollo 11 til Íslands til þess að æfa sig fyrir ferðina en íslenskt hraun þótti svipa til þeirra aðstæðna sem menn töldu að væru á tunglinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×