Innlent

Steingrímur fundar með framkvæmdastjóra AGS

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, situr nú á fundi með Dominique Strauss Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þeir ræða um endurskoðun efnahagsáætlunar sjóðsins og íslenskra stjórnvalda og lyktir Icesave málsins. Hann þrýstir á Strauss-Kahn að stjórn sjóðsins taki nú þegar fyrir endurskoðun áætlunarinnar. Hún hefur tafist, meðal annars vegna Icesave. Steingrímur hefur sagt að nú sé úrslitatilraun til að ganga frá því máli.

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er nú haldinn í Tyrklandi. Steingrímur hefur í meðal annars rætt við Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, og Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands þar ytra. Óvíst er um niðurstöðu þessara viðræðna.

Með Steingrími í för eru meðal annars Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður hans, og Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri. Haft var eftir Indriða í fjölmiðlum í gær að svör ættu að fara að berast frá Rússum, um lán til handa Íslendingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×