Íslenski boltinn

Ásmundur: Búnir að gera okkur mjög erfitt fyrir

Ellert Scheving skrifar
Ásmundur Arnarson þjálfari Fjölnis.
Ásmundur Arnarson þjálfari Fjölnis. Mynd/E.Stefán

Ásmundur Arnarson þjálfari Fjölnis var afar vonsvkinn í leikslok eftir 1-3 tap Fjölnismanna í Eyjum.

„Við erum búnir að gera okkur mjög erfitt fyrir með þessum tveimur tapleikjum í röð þannig að verkefnið framundan verður afar strembið," sagði Ásmundur.

Lið Fjölnis skapaði sér fjöldann allann af færum í kvöld en náði hreinlega ekki að nýta þau og geta því að mati Ásmundar aðeins sjálfum sér um kennt að ekki betur fór.

„Við fáum mikið af tækifærum í þessum leik og getum því sjálfum okkur um kennt að hafa ekki skorað meira í leiknum og það er fyrst og fremst það sem ég er ósáttur með."

Fjölnismenn voru langt frá því að vera slakari aðilinn í kvöld og því skiljanlegt að mikilli hiti hafi komist í leikmenn Fjölnis í lok leiks.

„Þegar menn eru í þessari stöðu eins og ég þá er maður fljótur að benda á dómarann því það er alltaf auðveldast að benda á hann. Þetta liggur auðvitað hjá okkur sjálfum en engu að síður þá fannst mér halla á okkur. Mér fannst vera mikið af sólatæklingum alveg frá upphafi til enda.

Eyjamenn voru grimmari og máttu vera grimmir og allt að því grófir og það voru mörg atvik sem átti að spjalda þá fyrir sem ekki er einu sinni dæmt brot á og við það pirrast menn," segir Ásmundur.

„Það skýrir líklega pirringinn á Andra Stein hér í lokin þegar hann fær tvær fætur í legginn, pirrast við það og það að línuvörðurinn hinum megin á vellinum skuli ákveða það að hann fái spjald er náttúrulega bara brandari," sagði Ásmundur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×