Innlent

Sprengja stíflur til að bjarga laxastofni

Orri Vigfússon er formaður NASF og hefur barist ötullega fyrir verndun laxastofna hér og erlendis á undanförnum árum. fréttablaðið/anton
Orri Vigfússon er formaður NASF og hefur barist ötullega fyrir verndun laxastofna hér og erlendis á undanförnum árum. fréttablaðið/anton
Tillögum Verndarsjóðs villtra laxastofna (NASF) um framtíðarnýtingu eins víðáttumesta votlendis Evrópu verður fylgt í þaula af frönskum stjórnvöldum. Þau hafa ákveðið að tvær stíflur á vatnasvæðinu, sem eru nálægt Mont-Saint-Michel, frægum ferðamannastað í Normandy, verði fjarlægðar.

Í september 2008 fól umhverfisráðuneytið í Frakklandi, sérfræðingahópi NASF, að gera gagngera úttekt á svæðinu og gera tillögur að endurheimt þess. Í byrjun þessa árs skilaði sérfræðingahópurinn tillögum sínum sem fela í sér að stíflurnar verði fjarlægðar sem hamlað hafa laxagöngum og aðkomu laxins að mikilvægum búsvæðum. Tillögurnar gerðu og ráð fyrir endurskipulagningu búsvæða, hógværð í nýtingu stangveiðimanna, viðskiptaáætlunum og samvinnu hagsmunaaðila við uppbyggingu svæðisins.

Jean-Louis Borloo, ráðherra umhverfismála, og Chantal Jouanno ráðuneytisstjóri, hafa kynnt ákvarðanir sínar sem fela í sér að leyfi til raforkuframleiðslu eru afturkölluð og héraðsstjóranum falið að gera ráðstafanir til að fjarlægja stíflurnar.

Formaður NASF, Orri Vigfússon, fagnar hugrekki Frakka og segir að hér sé sýnt í verki að unnið sé heils hugar að endurreisn laxastofna í Evrópu í Frakklandi. - shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×