Erlent

Jamie Oliver bjargar beikoninu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hmmm, hvaða viðbjóður er þetta? Jamie er ekkert mannlegt óviðkomandi þegar kemur að næringarmálum.
Hmmm, hvaða viðbjóður er þetta? Jamie er ekkert mannlegt óviðkomandi þegar kemur að næringarmálum. MYND/Bfeedme.com

Breski sjónvarpskokkurinn Jamie Oliver kemur nú þarlendum svínakjötsiðnaði til bjargar og hvetur landa sína til að velja breskt beikon umfram innflutt.

Kokkurinn klæðalausi leggur staðreyndirnar kviknaktar á borðið og heldur því fram að breskur svínakjötsiðnaður verði minningin ein áður en áratugur er liðinn sýni neytendur ekki samhug í verki og kaupi innlendar svínaafurðir.

Þær innfluttu eru vissulega ódýrari og engin furða að svínabændurnir eigi í vök að verjast með tekjuöflun sína á þessum síðustu og verstu þegar hinn almenni Breti lætur fremur stjórnast af hagsýni en gegndarlausri nautnahyggju. En ekki hvað? Tala atvinnulausra í Bretlandi er nálægt tveimur milljónum og sennilega eru háleitar hugsjónir um velferð svínabænda landsins í besta falli aftarlega á merinni þegar hugað er að kvöldverðinum.

Oliver gengur svo hart fram í málflutningi sínum að hann hefur hleypt af stokkunum heilli þáttaröð sem gengur undir heitinu Jamie Saves our Bacon, eða Jamie bjargar beikoninu, og spyr þar áleitinnar spurningar: Eigum við það skilið að komið sé fram við okkur eins og fífl? og vísar þar til neytenda. Svarið er auðvitað nei svo innlent skal svínið vera.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×