Innlent

Vísbendingar eru um sterkan þorskárgang

Farsæll á veiðum Haustrall Hafró gefur til kynna að sterkur árgangur komi inn í veiðina eftir fjögur til fimm ár.fréttablaðið/jse
Farsæll á veiðum Haustrall Hafró gefur til kynna að sterkur árgangur komi inn í veiðina eftir fjögur til fimm ár.fréttablaðið/jse

Niðurstöður haustralls Hafrannsóknastofnunarinnar gefa vísbendingar um að 2008-árgangurinn í þorski sé sterkur. Þetta kom fram í haustrallinu, sem er mikilvægur þáttur í árlegri úttekt Hafró á ástandi nytjastofna við landið sem lýkur í júní ár hvert.

Á bak við niðurstöðurnar eru þó mun minni gögn en að lokinni stofnmælingu að vori. „Þetta er aðeins einn hluti af okkar mælingu. Stofnmælingin í mars vegur mun þyngra í mati okkar á þorskstofninum. Því er hins vegar ekki að leyna að eftir því sem haustmælingarnar verða fleiri [hófust 1996, innskot blaðamanns], því marktækari verður hún. Engu að síður er ástæða til að draga andann djúpt þar til niðurstöður úr vorrallinu og úttekt á aflasamsetningu liggja fyrir í vor,“ segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar.

Jóhann segir að mælingin nú sýni einnig stærri og þyngri fisk, en það sé í samræmi við væntingar vegna aflasamdráttarins síðastliðin tvö ár. Hann segir mikilvægt að halda áfram á sömu braut; auka ekki veiðina að svo stöddu en njóta ávaxta uppbyggingarstarfsins þegar þar að kemur.

„Við verðum hins vegar að fá fleiri sterka eða meðalsterka árganga inn í stofninn til þess að geta átt von á verulega aukinni veiði á komandi árum,“ segir Jóhann. „Okkar ráðgjöf gengur út á að fá hærra hlutfall af stórum fiski inn í stofninn til þess að auka líkurnar á því að fá röð sterkra árganga inn í veiðistofninn.“ Á sama tíma og stofnmælingin sýnir sterkan 2008-þorskárgang kemur á móti að fyrstu vísbendingar gefa til kynna að 2009-árganginn sé undir meðalstærð.

Haustrallið gefur litla ástæðu til bjartsýni hvað varðar ýsustofninn. Heildarvísitalan er ekki nema rúmlega helmingur þess sem hún var árið 2004 og hefur lækkað um tuttugu prósent á milli ára. „Það er í samræmi við okkar rannsóknir og eftir gríðarlega sterkan ýsuárgang 2003, í reynd risaárgang í sögulegu samhengi, hefur þetta eðlilega verið niður á við.“ Jóhann segir margt benda til að fullmikið hafi verið veitt af ýsu á undanförnum árum en 2003-árgangurinn hafi staðið undir þeirri veiði.

Útlit er fyrir að grálúðan sé að hjarna við. Meira er af ungfiski í haustralli og gefur það vísbendingu um að veiðistofninn muni stækka á næstu árum. Ástand stofnsins er þó enn talið lélegt.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×