Erlent

Fyrsta smit á milli manna í Bretlandi staðfest

Graeme Pacitti.
Graeme Pacitti.

Skoskur heilbrigðisstarfsmaður hefur greinst með inflúensu af A stofni eða svokallaða svínaflensu. Það er í fyrsta skipti sem einstaklingur smitast í Bretlandi án þess að hafa verið nýlega í Mexíkó. Maðurinn, Graeme Pacitti er 24 ára gamall Skoti og hefur þegar verið settur á viðeigandi lyf og segja skosk heilbrigðisyfirvöld að ástand hans sé ekki alvarlegt.

Þetta mun vera aðeins í annað sinn sem flensan greinist í fólki utan Ameríku sem ekki hefur heimsótt Mexíkó, en tilkynnt var um annað tilfelli í morgun í Þýskalandi þar sem kona hefur smitast. Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi segja að búast megi við fleiri smitum á milli manna og að ekki sé ástæða til þess að óttast það svo lengi sem sjúkdómseinkennin eru mild.

Ef smit á milli manna heldur áfram víðs vegar um heiminn og tíðnin eykst er líklegt að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin færi viðbúnaðarstigið upp á sjötta stig úr því fimmta, sem þýðir að heimsfaraldur sé hafinn.

Pacetti, sem vinnur á spítala í Falkirk í Skotlandi er í einangrun á heimili sínu ásamt móður sinni og öðrum fjölskyldumeðlimum. Hann er talinn hafa smitast af félaga sínum en þeir spila fótbolta reglulega saman.




Tengdar fréttir

481 svínainflúensutilfelli í 11 löndum

Staðfestum tilvikum svínainflúensu í heiminum fjölgar áfram. Þau voru alls 481 í morgun, þar af 312 í Mexíkó. Alls hafa þrettán látist úr veikinni þar af tólf í Mexíkó og einn í Bandaríkjunum. Þetta eru nýjustu upplýsingar Sóttvarnastofnunar Evrópu og er Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áfram með viðbúnað sinn á fimmta hættustigi af sex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×