Íslenski boltinn

Helgi: Er bara í ársfríi frá úrvalsdeildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helgi Sigurðsson í Víkingsbúningnum í dag.
Helgi Sigurðsson í Víkingsbúningnum í dag.

Helgi Sigurðsson skrifaði í dag undir þriggja ára samning við 1. deildarlið Víkings auk þess sem hann mun taka að sér að þjálfunarstarf í nýrri afrekslínu sem félagið er nú að stofna.

„Þetta var ekki létt ákvörðun," sagði Helgi í samtali við Vísi. „Það sem réði mestu var að koma aftur til félagsins sem ól mig upp. Það er líka áskorun fólgin í því að taka þátt í því að koma félaginu aftur upp í efstu deild auk þess sem mér bauðst að taka að mér spennandi þjálfarastöðu."

„Það er greinilega mikill metnaður í Víkinni og er stefnan tekin beint upp. Það er þó ljóst að það þarf að styrkja liðið meira og ég vona að ég verði ekki síðasti leikmaðurinn sem kemur til liðsins í vetur."

„En það er líka mikið af efnilegum strákum í félaginu sem miklar vonir eru bundnar við. Það þurfti ef til vill að fá fleiri eldri leikmenn til að miðla af reynslu sinni til þeirra."

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Helgi ákveður að taka slaginn í 1. deildinni en hann samdi við Fram þegar hann sneri aftur til landsins úr atvinnumennsku fyrir tímabilið 2006.

„Þeir voru margir sem héldu að ég væri orðinn galinn þá. En ári síðar kom ég aftur í úrvalsdeildina og varð Íslandsmeistari með Val. Ég lít því á þetta eins og eins árs hlé frá úrvalsdeildinni og er ég ekki kominn til Víkings til að slappa af. Þeir sem þekkja mig vita að ég geri miklar væntingar til sjálfs míns."

„Þetta verður þó ekki auðvelt. Ég veit að ég þarf að vera í góðu standi næsta sumar enda mörg lið sem vilja komast upp í efstu deild."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×