Innlent

Viljum gleðjast þótt tímar séu erfiðir

jólahlaðborð Það getur verið gott að gleðja starfsmenn sína með jólahlaðborði. Myndin er tekin á Hótel Örk.
jólahlaðborð Það getur verið gott að gleðja starfsmenn sína með jólahlaðborði. Myndin er tekin á Hótel Örk.

„Einmitt í svona árferði er ákveðið sjónarmið að horfa fram á veginn og láta skína í að það séu bjartari tímar fram undan," segir Þórður Snorri Óskarsson, aðjúnkt í vinnusálfræði við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, spurður hvort fyrirtæki eigi að halda jólahlaðborð í kreppunni eða borga starfsmönnum frekar andvirði þess.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær vill starfsmaður hjá Orkuveitu Reykjavíkur frekar peningagreiðslu en að fyrirtækið bjóði honum í jólahlaðborð.

Þórður segir að út frá vinnu­sálfræði geti bæði sjónarmið verið gild. Jólahlaðborð geti verið þáttur í að þjappa starfsfólki saman. „Það má líta á það sem ákveðna hvatningu og umbun. En svo má auðvitað líka líta á það að sumir vilja heldur fá þetta í launaumslaginu. Ég held að hver og einn stjórnandi verði að meta hvernig staðan er á hverjum stað og hvað fellur best að þeim viðhorfum sem eru ríkjandi. Það er ekkert sem segir að annað sé betra en hitt," segir Þórður.

Sjálfur hallast Þórður fremur að því að halda beri jólahlaðborð. Í kreppunni sé það betra en að einblína á að menn komist aldrei út úr erfiðleikunum.

„Það má segja að þetta sýni ákveðið þakklæti og fólk vill líka gleðjast þótt það séu erfiðir tímar. Eins eru þetta kannski ekki heldur svo miklir peningar hjá stóru fyrirtæki."- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×