Lífið

Spilar á þaki í Washington

Sunna Gunnlaugsdóttir Sunna spilar uppi á þaki sænska sendiráðsins í Washington DC á þjóðhátíðardaginn 17. júní.
Sunna Gunnlaugsdóttir Sunna spilar uppi á þaki sænska sendiráðsins í Washington DC á þjóðhátíðardaginn 17. júní.

„Mér finnst þetta ferlega spennandi," segir píanóleikarinn Sunna Gunnlaugsdóttir sem spilar með djasskvartett sínum á þaki sænska sendiráðsins í Washington DC á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Tónleikarnir eru hluti af norrænni djasshátíð sem verður haldin í Washington og munu fleiri hljómsveitir spila uppi á þakinu. „Þetta er svolítið óvenjulegt," viðurkennir Sunna, sem ætlar að spila í klukkutíma með hljómsveit sinni.

Bítlarnir héldu sögufræga lokatónleika sína uppi á þaki Apple-byggingarinnar í London 1969 og U2 gerði slíkt hið sama fyrr á þessu ári á þaki höfuðstöðva BBC í London. Sunna slæst því í hóp mikilla tónlistargoðsagna með tónleikum sínum í Washington og á vafalítið eftir að vekja mikla lukku.

Tónleikarnir smellpassa við dagskrá Sunnu því hún hefur þegar bókað tónleika í New York og Virginíu um svipað leyti. Að auki ætlar hún að taka upp nýja plötu í Brooklyn í New York en áður hefur hún tekið þar upp plöturnar Mindful og Songs From Iceland. Hún segir það æðislegt að taka þar upp plötu. „Við erum með alveg súperfínan flygil og maður vill helst ekki fara heim aftur. Þetta er risastórt pláss og viðarinnréttað. Það er bara algjör lúxus að vera þarna."

Til að hita upp fyrir ferðalag sitt til Bandaríkjanna spilar Sunna í Vonarsal SÁÁ í Reykjavík 28. maí ásamt Þorgrími Jónssyni kontrabassaleikara og Scott McLemore trommara. Tónleikarnir hefjast klukkan 12 og standa yfir í hálftíma. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.