Enski boltinn

Alan Shearer: Okkur vantar sjálfstraust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alan Shearer og Iain Dowie.
Alan Shearer og Iain Dowie. Mynd/GettyImages

„Sjálfstraust skiptir öllu máli í fótbolta. Eins og það getur orðið vani að vinna leikja þá getur það einnig orðið vani að tapa leikjum," sagði Alan Shearer, stjóri Newcastle eftir markalaust jafntefli á móti Portsmouth á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í gær

„Eins og staðan er núna þá gengur okkur mjög illa að ná í þennan fyrsta sigur. Ef við náum honum þá getum við komist á skrið. Okkur vantar sjálfstraust," sagði Shearer en Newcastle hefur aðeins skorað eitt mark í fjórum leikjum undir hans stjórn.

„Það voru mikil vonbrigði að vinna ekki þennan leik því mér fannst við skapa nógu mörg færi til þess að eiga öll þrjú stigin skilin," sagði Shearer en Michael Owen, Mark Viduka og Obafemi Martins fengu allir fín færi til að koma Newcastle á blað.

Newcastle hefur aðeins fengið tvö stig út úr fyrstu fjórum leikjunum undir stjórn Shearer og nú á liðið aðeins fjóra leiki eftir til þess að bjarga sér frá falli. Staðan er ekki góð, liðið er í þriðja neðsta sæti og þremur stigum á eftir Hull sem situr í síðasta örugga sætinu.

„Það verða þrjú eða fjögur lið á tauginni í lokaumferðinni og við verðum að sjá til þess að við verðum þá ennþá með í barátunni," sagði Shearer.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×