Innlent

Aðdráttarafl Akureyrar eykst

Ferðamenn hafa flykkst til Akureyrar í vetur og sett voru fjöldamet bæði í Hlíðarfjalli og sundlaug bæjarins. Það er um 120% aukning á gestum í fjallinu frá því í fyrra segir Ragnar Hólm Ragnarsson upplýsinga-og kynningamálastjóri Akureyrarbæjar.

Ragnar segir ástæðurnar nokkrar. Gengisfelling krónunnar hefur orðið til þess að fólk ferðast frekar innanlands, Akureyrarbær hefur líka verið með auglýsingaherferð og síðast en ekki síst þá hefur veðurfar verið með eindæmum gott. Frá því að Hlíðarfjall opnaði í nóvember hefur það verið opið í yfir 100 daga, miðað við 70 daga í fyrra. Umferðin um bæinn er á við páskaumferðina segir Ragnar glaður í bragði.

„Akureyri er paradís og við höfum hér upp á allt að bjóða sem prýðir hvaða stórborg sem er" fullyrðir Ragnar og segir að Akureyri ætti að freista allra. Fyrir utan aðdráttarafl Hlíðarfjalls séu alls kyns menningarviðburðir í boði og til að mynda mun Sinfóníuhljómsveit Norðurlands vera með tónleika á sunnudaginn.

Þá verður eitt helsta vetrartákn Akureyrar, snjókarlinn stóri með sinn trefil og appelsínugula nef, reistur á Ráðhústorgi um næstu helgi og mun körfuknattleiksdeild Þórs sjá um að reisa karlinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×