Innlent

Mikil reiði meðal starfsmanna

Ef ekkert verður gert í málunum munu þeir sem ekki fengu greidd laun gera eitthvað í þeim.fréttablaðið/pjetur
Ef ekkert verður gert í málunum munu þeir sem ekki fengu greidd laun gera eitthvað í þeim.fréttablaðið/pjetur

Rúmlega 100 starfsmenn SPRON, sem eru á uppsagnarfresti, fengu ekki laun sín greidd 1. júlí. Gera átti upp laun og orlof starfsmanna á þriggja mánaða uppsagnarfresti. Mikil reiði er meðal starfsmanna, segir Ólafur Már Svavarsson, fyrrverandi formaður starfsmannafélags SPRON.

Ástæðan er að slitastjórn SPRON sagði í tilkynningu að lög sem kvæðu á um að fjármálafyrirtæki gæti greitt starfsmönnum sínum í greiðslustöðvun giltu ekki um SPRON því að SPRON hefði aldrei farið í greiðslustöðvun. Tilkynningin var send út daginn áður en greiða átti launin.

Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segir þetta fáránlegt þar sem allir í bankageiranum hafi fengið laun sín nema starfsmenn SPRON. Sjálfur vann hann að því að setja lögin sem slitastjórnin vísar til.

„Ekki datt mér í hug að þetta yrði notað gegn SPRON síðar. Slitastjórnin hengir sig í texta laganna,“ segir Friðbert.

Starfsmenn gátu ekki beitt sér í málinu því að tilkynningin var send svo seint, að sögn Ósvalds Knudsen, fyrrverandi starfsmanns SPRON.

„Slitastjórn kemur fram af mikilli hörku og túlkar öll vafaatriði starfsmönnum í óhag. Ef ekkert verður gert í málunum mun þessi stóri hópur hittast og ákveða næstu skref.“

Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis, segir fulltrúa frá viðskiptaráðuneytinu hafa komið á fund nefndarinnar 1. júlí og kynnt henni málið. Nefndin vissi ekki af þessu fyrr en þá, að sögn Álfheiðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×