Innlent

Fái 110 milljónir króna fyrir vegstæði

Fyrir tvöföldu.n Byrjað var að breikka Vesturlandsveg ofan við Blikastaði í Mosfellsbæ á árinu 2005 og þurfti að taka land við vegstæðið eignarnámi.
Fréttablaðið/GvA
Fyrir tvöföldu.n Byrjað var að breikka Vesturlandsveg ofan við Blikastaði í Mosfellsbæ á árinu 2005 og þurfti að taka land við vegstæðið eignarnámi. Fréttablaðið/GvA

Einkahlutafélagið Bleiksstaðir á að fá greiddar rúmar 110 milljónir króna frá Vegagerð ríkisins samkvæmt niðurstöðu Matsnefndar eignarnámsbóta. Greiðsluna á Vegagerðin að inna af hendi fyrir 4,4 hektara lands með Vesturlandsvegi í landi Blikastaða milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur. Hluta landræmunnar sem um ræðir tók Vegagerðin til handargagns þegar á árinu 1976 en þurfti breiðari spildu vegna breikkunar sem gerð var á Vesturlandsvegi á árunum 2005 og 2006.

Bleiksstaðir, sem eignuðust Blikastaði snemma á árinu 2008, vildu að miðað yrði við verð byggingarlands á þeim tíma sem félagið keypti jörðina. Landið hafi getað nýst undir byggingar. Vegagerðin sagði óraunhæft að miða verðið við árið 2008 og að landið væri óbyggingarhæft, meðal annars vegna halla og nálægðar við þjóðveginn.

Matsnefndin segir engan virkan markað vera með land til nýbygginga á svæðinu og að fjöldi ný- og hálfbyggðra húsa sé til sölu. Markaðsástandið sé mun lakara nú en í október 2004 þegar Vegagerðin fékk umráð yfir landinu. Við matið verði því að líta til markaðsverðs ársins 2004 og taka tillit til þess tíma sem liðinn er frá því ári. Þá féllst matsnefndin á það með Vegagerðinni að landið hafi aldrei hentað til bygginga, bæði vegna landhallans og ákvæða í vegalögum. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×