Innlent

Parið væntanlega vistað í fangaklefum á Hverfisgötu

Ekki er pláss fyrir unga parið sem grunað erum að hafa skotið á hús í Seljahverfi um helgina í íslenskum fangelsum. Krafist var gæsluvarðhalds yfir fólkinu í dag og verði héraðsdómur við beiðni lögreglu verður fólkið að öllum líkindum vistað í fangaklefum lögreglunnar á Hverfisgötu, að sögn Páls Winkel fangelsismálastjóra. Hann segir að hugsanlega verði maðurinn hafður í öryggisklefa í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Fangaklefarnir á Hverfisgötu eru að öllu jöfnu notaðir til að vista útigangsmenn og slagsmálahunda um helgar.

Það var á fjórða tímanum aðfaranótt sunnudags sem árásin var gerð. Maður með lambhúshettu bankaði upp á í húsi í Þverárseli í Breiðholti en hann var vopnaður haglabyssu. Þegar húsráðandi kom til dyra var hann barinn með skefti haglabyssurnar í höfuðið. Húsráðandinn náði að loka dyrunum en þá skaut árásarmaðurinn nokkrum skotum í hurðina og í glugga við hlið hennar. Rúða á glugganum splundraðist við þetta en húsráðandinn slapp ómeiddur. Árásarmaðurinn gerði hins vegar ekki tilraun til að komast inn í húsið og hafði sig á brott. Húsráðandinn hringdi þá á lögreglu sem kom á vettvang ásamt sérsveitarmönnum skömmu síðar. Skýrslur voru teknar af nágrönnum og upplýsinga aflað. Í morgun var svo ungt par handtekið vegna árásarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×