Innlent

Sigrún ráðin framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Sigrún Jónsdóttir tekur við sem framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar um næstu mánaðarmót. Mynd/Samfylkingin
Sigrún Jónsdóttir tekur við sem framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar um næstu mánaðarmót. Mynd/Samfylkingin

Stjórn Samfylkingarinnar hefur ráðið Sigrúnu Jónsdóttur stjórnmálafræðing sem framkvæmdastjóra flokksins frá með septembermánuði næstkomandi. Hún gegndi tímabundið störfum framkvæmdastjóra eftir að Skúli Helgason lét af störfum í vor.

Starfið var auglýst í júní og voru umsækjendur tæplega þrjátíu, mikið af reynslumiklu og velmenntuðu fólki, að fram kemur á vef flokksins.

Þar segir að Sigrún eigi að baki farsælan feril bæði í flokksstarfi og í störfum meðal annars fyrir Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytið. Hún gegndi tímabundið starfi framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar í kosningunum á síðast liðnu vori og í alþingiskosningunum árið 2007 var hún kosningastjóri Samfylkingarinnar á landsvísu. Árið 2003 var hún kosningastjóri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Sigrún var bæjarfulltrúi í Kópavogi árunum 1998 til 2006.

Sigrún er með BA próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og kennsluréttindi frá sama skóla. Frá því síðla árs 2005 hefur hún starfað hjá Háskóla Íslands, fyrst sem verkefnisstjóri í félagsvísindadeild en undanfarið sem deildarstjóri félags- og mannvísindadeildar.

Sigrún starfaði sem sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu á árunum 1993 til 2005. Hún var framkvæmdastjóri þingflokks Kvennalistans 1987 til 1991 og vann um tíma við blaðamennsku.

Eysteinn ráðinn upplýsingafulltrúi þingflokksins

Eysteinn Eyjólfsson hefur verið ráðinn upplýsingafulltrúi þingflokks Samfylkingarinnar og hefur þegar hafið störf. Eysteinn var kosningastjóri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi í vor. Hann hefur einnig verið formaður Samfylkingarfélagins í Reykjanesbæ.

Eysteinn hefur lagt stund á nám í stjórnmálafræði og sagnfræði við HÍ. Hann kenndi við Heiðarskóla í Reykjanesbæ og hefur starfað við verkefnastjórn síðustu árin, meðal annars fyrir Samfylkinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×