Innlent

Ísland-Palestína: Össur heiðursgestur á aðalfundi

Félagið Ísland-Palestína boðar til aðalfundar í Norræna húsinu miðvikudag 15. apríl kl. 20. Í upphafi aðalfundar mun Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra flytja stutt ávarp en hann er heiðursgestur fundarins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þar segir ennfremur að Chris Foster, þjóðlagasöngvari og gítarleikari, muni flytja nokkur lög eftir sig. Chris mun vera einn fremsti þjóðlagasöngvari á enska tungu samkvæmt tilkynningunni, en hann hefur verið búsettur hér á landi síðan 2004, kvæntur Báru Grímsdóttur tónskáldi og þau koma einnig iðulega fram saman.

„Greint verður frá ferð til Gaza sem haldið verður í daginn eftir aðalfundinn. Hún er samstarfsverkefni félagsins og Össurar Kristinssonar stoðtækjasmiðs og uppfinningamanns, en farið verður með efni og mannskap til að smíða gervifætur fyrir allt að 30 manns.

Skorað er á félaga að fjölmenna á mikilvægan fund með áhugaverðri dagskrá. Minnt er á stjórnarkjör, en í stjórn hafa setið 11 manns, sjö aðalmenn og fjórir til vara, sem starfa jafnfætis hinum. Alltaf er þörf á nýjum kröftum," segir í titlkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×