Innlent

Stjórnarviðræður tímafrekar

Gunnar Thoroddsen hjó á hnútinn eftir ríflega þriggja mánaða stjórnarkreppu árið 1980. Ólíklegt er að slíkan tíma þurfi nú.
Gunnar Thoroddsen hjó á hnútinn eftir ríflega þriggja mánaða stjórnarkreppu árið 1980. Ólíklegt er að slíkan tíma þurfi nú.

Sé litið til sögunnar þarf ekki endilega að búast við því að niðurstaða komist í stjórnarmyndunarviðræður á næstunni. Reyndar eru aðstæður sérkennilegar þar sem minnihlutastjórn fékk meirihluta í kosningum í fyrsta skipti.

Síðan Viðreisnarstjórnin féll hafa stjórnarmyndunarviðræður skemmst tekið 10 daga. Það var Viðeyjarstjórn Jóns Baldvins og Davíðs sem mynduð var árið 1991. Í því tilliti er ekki horft til þess þegar stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hélt velli í kosningum 1999 og 2003, enda sátu þær áfram.

Þingvallastjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók til starfa 11 dögum eftir kosningar, en áður höfðu fyrrum stjórnarflokkar, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur, átt í viðræðum. Þeir flokkar mynduðu hins vegar stjórn 15 dögum eftir alþingiskosningar 1995.

Lengstan tíma tók að mynda stjórnirnar 1978 og 1979, 67 daga í bæði skiptin. Þá var farið að ræða um stjórnarkreppu, sem og árið 1987, en þá tóku viðræður 43 daga. Hins vegar tók 33 daga að mynda stjórnirnar 1983 og 1971.

Líkt og áður segir eru aðstæður mjög óvenjulegar nú; minnihlutastjórn fær meirihluta. Þó að stjórnin hafi haldið velli ber að geta þess að ekki var gerður eiginlegur stjórnarsáttmáli þegar hún var mynduð. - kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×