Erlent

Dauðadómur fyrir eitraða þurrmjólk

Frá Hangzhou í austurhluta Kína um miðjan september. Kínversk börn sem veikst fengu fría læknisþjónustu. MYND/AFP
Frá Hangzhou í austurhluta Kína um miðjan september. Kínversk börn sem veikst fengu fría læknisþjónustu. MYND/AFP

Kínverskur dómstóll hefur staðfest dauðadóm yfir karlmanni fyrir þátt hans í að búa til og selja eitraða þurrmjólk sem varð sex börnum að bana. Maðurinn var yfir einni af framleiðslustöðvunum þar sem þurrmjólkin var unnin.

Það var í september á síðasta ári sem að þúsundir kínverskra barna veiktust eftir að hafa drukkið þurrmjólk sem var menguð af efninu melamín. Efnið veldur nýrnabilun hjá ungum börnum og var sett í mjólkina af framleiðendum til að draga úr kostnaði. Efnið var notað til að tryggja að hærra prótín mældist í mjólkinni en í raun og veru var en það er venjulega notað við framleiðslu á plasti.

Málið vakti mikla athygli og kom fljótlega í ljós að fjölmargir framleiðendur þurrmjólkur höfðu bætt efninu út í mjólkina. Talið er að hátt í þrjú þúsund börn hafi veikst eftir að hafa drukkið mjólkina og sex látist. Börnin fengu nýrnasteina sem í sumum tilvikum leiddi til alvarlegrar nýrnabilunar.

Alþjóðaheilbrigðisstofnun aðstoðaði kínversk stjórnvöld við hjálpa þeim börnum sem veiktust en gagnrýndu harkalega hversu sein kínversk stjórnvöld voru að tilkynna málið til þeirra.

Fyrr á þessu ári voru tveir karlmenn dæmdir til dauða fyrir þátt sinn í að framleiða og selja mengaða mjólk auk þess sem þrír aðrir hafa hlotið dóma fyrir þáttöku sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×