Innlent

Bundið slitlag komið á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur

Bundið slitlag er nú komið á leiðina milli Ísafjarðar og Reykjavíkur en í gær var lokið við að klæða síðasta kaflann á veginum um Arnkötludal. Þótt ekki sé enn búið að opna veginn formlega eru ökumenn þegar byrjaðir að aka þar um.

Ingileifur Jónsson verktaki og menn hans luku í gær við að leggja bundið slitlag á þennan 25 kílómetra veg milli Gilsfjarðar og Steingrímsfjarðar. Eftir er að setja upp merkingar, vegstikur og víraleiðara og er því ekki enn búið að opna veginn formlega en áformað er að það verði gert með vígsluathöfn þann 9. október.

Ökumenn virðast hins vegar ekki geta beðið svo lengi og eru þegar byrjaðir að aka veginn, þótt skilti segi að hann sé lokaður. Ingileifur segir að menn fari þá veginn á sína ábyrgð en verktakinn hindri menn ekki í að aka þar í gegn.

Menn geta því frá og með gærdeginum ekið á malbiki alla leið milli Ísafjarðar og Reykjavíkur og stytt sér leiðina til Hólmavíkur um 40 kílómetra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×