Innlent

Niðurskurður mestur hérlendis

Rafræn stjórnsýsla er sögð auka afköst hjá hinu opinbera og auðvelda samskipti við almenning. Þá nota sum ríki tækifærið og auka gagnsæi stjórnsýslunnar. Nordicphotos/AFP
Rafræn stjórnsýsla er sögð auka afköst hjá hinu opinbera og auðvelda samskipti við almenning. Þá nota sum ríki tækifærið og auka gagnsæi stjórnsýslunnar. Nordicphotos/AFP
Áhersla kann að aukast á rafræna stjórnsýslu vegna áhrifa frá efnahagskreppunni, segir í nýrri úttekt Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD.

„Þrýstingur á opinber útgjöld í kjölfar efnahagskrísunnar rekur ríkisstjórnir til að endurmeta nálgun sína hvað varðar opinbera þjónustu á netinu sem hluta af viðleitni stjórnvalda til að auka afköst,“ segir í tilkynningu OECD.

Fram kemur að mörg aðildarríkja samtakanna noti nú tækifærið í kreppunni til að skerpa á áherslum og hraða áætlunum sem snúa að rafrænni stjórnsýslu. Flest lönd haldi þó óbreyttum útgjöldum.

Þýskaland, Japan, Holland, Sviss og Bandaríkin hafa aukið útgjöld í málaflokknum. „Austurríki, Ungverjaland, Ísland og Bretland draga úr útgjöldum tengdum rafrænni stjórnsýslu árið 2009 og stefna á frekara aðhald,“ segir í tilkynningu OECD, en fram kemur að hér á landi hafi niðurskurðurinn verið einna mestur. Á þessu ári hafi fjárheimildir tengdar rafrænni stjórnsýslu verið skornar niður um 16,5 prósent og viðbúinn sé 18 prósenta niðurskurður til viðbótar árið 2010.

Kreppan er einnig sögð stuðla að breyttum áherslum ríkja í málaflokknum. „Bandaríkin nota til dæmis tækni og internetið til að auðvelda fólki að sjá á sem gleggstan og fljótlegastan máta hvernig skattpeningar þess eru notaðir í tengslum við aðstoð ríkisins við fjármálageirann.“ - óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×