Innlent

Hestaníðingur sektaður

Hestar. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint.
Hestar. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint.

Bóndi á Suðurlandi var dæmdur til þess að greiða 300 þúsund krónur í sekt fyrir að brot á dýraverndarlögum um búfjárhald og reglugerð um aðbúnað og heilbrigðiseftirlit hrossa. Bóndinn hefur áður verið dæmdur fyrir illa meðferð á ellefu hrossum árið 2006.

Maðurinn var upprunalega ákærður fyrir að vanrækja gróflega aðbúnað, umhirðu og fóðrun á fimm hrossum. Fallið var frá ákæru vegna brota á einni hryssu. Hann var svo sýknaður af illri meðferð á tveimur hestum til viðbótar. Hinsvegar þótti sannað að hann hefði vanrækt aðbúnað tveggja hrossa. Einn hesturinn var ómerktur og ekki var unnt að sanna að bóndinn bæri ábyrgð á þeim hesti.

Hrossin reyndust vera stiguð á bilinu 1,5 til 2,0 í holdstigun sem þýðir að þau hafi verið metin á bilinu grindhoruð til horuð. Athugunin var framkvæmd í febrúar á síðasta ári.

Bóndinn var einnig sakfelldur fyrir að hafa brotið lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim þegar hann ók heyrrúllu um þjórsárbrú og yfir í Ásahrepp yfir smitvarnarlínu án leyfis landbúnaðarráðherra í febrúar á síðasta ári.

Ákæruvaldið gerði kröfu um að bóndinn yrði sviptur leyfi til þess halda búfénað. Ekki var fallist á það. Var bóndinn því dæmdur til þess að greiða 300 þúsund krónur í sekt í Héraðsdómi Suðurlands í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×