Innlent

Vill samstöðu um kröfu á sanngjarnri málsmeðferð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bjarni Benediktsson ræddi við forystumenn ríkisstjórnarinnar í dag. Mynd/ Anton.
Bjarni Benediktsson ræddi við forystumenn ríkisstjórnarinnar í dag. Mynd/ Anton.
„Þetta var ágætur fundur. Hann var mjög málefnalegur og þetta voru ágætis skoðanaskipti sem áttu sér stað á þessum fundi," sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, eftir fund í Stjórnarráðinu í dag. Hann, ásamt fulltrúum Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar, funduðu með leiðtogum ríkisstjórnarinnar í dag.

Bjarni segir það vera augljóst af málsatvikum öllum að það eigi sér viðræður þessa dagana við Breta og Hollendinga. „Það ætti öllum að vera jafn ljóst að Bretar og Hollendingar hafa ekki fellt sig við alla fyrirvara þingsins við ríkisábyrgðinni," segir Bjarni. Hann segist að öðru leyti eiga erfitt með að tjá sig hvað hafi farið fram á fundinum því óskað hafi verið eftir trúnaði um það sem þar fór fram.

Hann segist sjálfur hafa lagt á það áherslu að þegar væri í gildi lög um ríkisábyrgð. Þingið sé búið að fjalla um málið á Alþingi og ríkisstjórnin bundin af því máli. Rík skylda hvíli á ríkisstjórninni að halda á lofti þeim fyrirvörum sem búið er að samþykkja.

Þá segist Bjarni telja að það sé mun líklegra til samstöðu meðal þjóðarinnar að halda fast við kröfu Íslendinga um sanngjarna málsmeðferð í Icesave málinu. Íslendingar geti með góðri samvisku sagt að þeir hafi gert miklu meira heldur en hægt er að ætlast til þess að leysa þetta mál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×