Innlent

Strætó skilar hagnaði í ár

Forstjórinn segir stefna í 200 milljóna króna afgang í ár sem nýtist félaginu vel á næsta ári. fréttablaðið/stefán
Forstjórinn segir stefna í 200 milljóna króna afgang í ár sem nýtist félaginu vel á næsta ári. fréttablaðið/stefán
Strætó bs. mun skila 200 milljóna króna hagnaði í ár, ef fram heldur sem horfir. Það er algjör viðsnúningur frá rekstri síðustu ára og í fyrsta sinn síðan 2004 sem fyrirtækið skilar hagnaði.

Miklar breytingar urðu á kerfi vagnanna í febrúar í sparnaðarskyni. Þá var ferðum fækkað, leiðum breytt og ferðir aflagðar á ákveðnum tímum. Þessar aðgerðir spöruðu fyrirtækinu 150 milljónir og með öðrum aðhaldsaðgerðum tókst að spara um fimmtíu milljónir í viðbót. Með því og fjárframlagi eigenda var fjárþörf fyrirtækisins fullnægt, en í fyrra fóru forsvarsmenn þess fram á 300 milljóna króna aukaframlag. Eigendurnir, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, samþykktu 100 milljóna króna framlag.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum að veita fyrirtækinu tæplega sextíu milljónir króna. Það er lokagreiðslan af þeim sem sveitarfélögin samþykktu að setja í reksturinn. Í nóvember þarf fyrirtækið að greiða 100 milljóna króna lán og verður framlag eigendanna nýtt til þess.

Reynir Jónsson, forstjóri Strætó, segir gott að hafa borð fyrir báru á næsta ári, sem verði erfitt. Trauðla verði lengra stigið í að minnka þjónustustigið.- kóp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×