Innlent

Jón Ólafsson hafði betur gegn Bretum

Þeir félagar hafa eldað grátt silfur saman í rúman áratug. Nú stendur Jón eftir með gullið og vonast til að þeir Hannes nái lendingu í málinu.
Þeir félagar hafa eldað grátt silfur saman í rúman áratug. Nú stendur Jón eftir með gullið og vonast til að þeir Hannes nái lendingu í málinu.

„Ég fagna þessari niðurstöðu og vona að við Hannes finnum sátt og flöt í þessu máli sem verður okkur báðum til sóma,“ segir athafnamaðurinn Jón Ólafsson, sem í fyrradag hafði betur gegn breska ríkinu í meiðyrðamáli gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni.

Málið hófst fyrir áratug þegar Hannes sagði Jón hafa hagnast á glæpastarfsemi í erindi sem hann flutti á ensku árið 1999. Útdrátt úr því setti Hannes á vefsíðu sína sem vistuð var hjá Háskóla Íslands.

Jón taldi ummæli Hannesar hafa valdið sér fjárhagslegu tjóni og höfðaði meiðyrðamál gegn honum fyrir breskum dómstólum árið 2004. Dómur féll Jóni í vil í undirrétti árið eftir þar sem Hannes var dæmdur til að greiða Jóni tæpar tuttugu milljónir króna að þávirði í bætur og málskostnað. Hann áfrýjaði málinu til yfirréttar í Lundúnum, sem ógilti dómsniðurstöðuna með þeim rökum að stefna í málinu hefði ekki verið birt Hannesi samkvæmt íslenskum lögum.

Hannes mótmælti því jafnframt að dómurinn yrði fullnustaður hér á landi en að kröfu Jóns gerði sýslumaðurinn í Reykjavík fjárnám fyrir dómkröfunni í skuldabréfi sem Hannes hafði fengið vegna sölu á húseign sinni.

Samkvæmt þessu hefði Jón þurft að sækja málið gegn Hannesi á ný ytra. Það gerði hann ekki enda taldi hann breska sendiráðið hér hafa gert mistök og stefndi því breska ríkinu.

Á fimmtudag hafði Jón svo betur í málinu sem staðið hefur í tíu ár. Hann þarf ekki að sækja málið á ný og greiðir breska ríkið honum þær skaðabætur sem Hannes hefði að öðrum kosti átt að greiða honum. Þær hljóða upp á 65 þúsund pund, jafnvirði þrettán milljóna króna. Óvíst er hver greiðir málskostnað, 25 þúsund pund, sem jafngildir fimm milljónum króna.

Ætla má að kostnaður vegna málsins hlaupi á um tugum milljónum króna í heildina.

Spurður hvort til enn frekari málaferla kunni að koma segir Jón það ekki alveg komið í ljós. „Ég vona bara að við Hannes náum lendingu í málinu,” segir hann.

Hannes Hólmsteinn vildi ekki tjá sig um málið enda hefði hann ekki heyrt af dómsniðurstöðunni fyrr en Fréttablaðið sagði honum hana í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×