Innlent

Breytt viðhorf til kannabiss

Svo virðist sem breytt viðhorf gagnvart kannabisneyslu geri nú vart við sig meðal ungs fólks á Íslandi. Það líti jafnvel ekki lengur á kannabisefni sem ólögmætt og varasamt fíkniefni. Þetta kom fram í máli Arngríms Gunnarssonar, forvarnar­fulltrúa í Fjölbrautaskólanum í Ármúla, á morgunverðarfundi samtakanna Náum áttum, um kannabisneyslu á Íslandi í fyrradag.

Sagði Arngrímur að unglingar á framhaldsskólaaldri hefðu sumir hverjir þær hugmyndir nú til dags að kannabis væri jafnvel hollt, væri lyf og að það ætti sjálft að ráða því hvort það skaðaði sig eða ekki. Skaðsemin af kannabisneyslu væri ekki meiri en til dæmis af sykurneyslu eða ofþjálfun í líkamsrækt.

Karl Steinar Valsson, yfir­maður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hélt einnig erindi á fundinum. Sagði hann að á liðnum árum hefði lögregla lagt hald á 100 til 200 kannabisplöntur á ári hverju, en þær hefðu hins vegar verið 100 til 200 á viku það sem af væri ári. Raunar væri kannabisrækt á Íslandi svo mikil að lögregla kæmist ekki í að leggja hald á allt það sem vitað væri um. Ætla megi að eitthvað af þessari innlendu framleiðslu væri ætluð til útflutnings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×