Innlent

Veiðidögum fækkað í fimm

Ein rökin fyrir áframhaldandi veiðum eru menningarlegs eðlis. Lundi hefur verið veiddur í háf í Eyjum síðan árið 1875.
Ein rökin fyrir áframhaldandi veiðum eru menningarlegs eðlis. Lundi hefur verið veiddur í háf í Eyjum síðan árið 1875.

Veiðitímabil lunda í Vestmannaeyjum verður aðeins fimm dagar í sumar og hefur verið stytt úr 55 dögum. Ákvörðunin er tekin í ljósi válegrar stöðu lundastofnsins. Þetta er samkomulag á milli Vestmannaeyjabæjar, Náttúrustofu Suðurlands og Félags bjargveiðimanna í Eyjum vegna nytja og rannsókna á lunda fyrir veiðitímabilið 2009.

Hin takmarkaða veiði mun verða nýtt til rannsókna á vegum Náttúrustofu Suðurlands. Sérstaklega verður horft til rannsókna á varpi og afkomu pysja. Auk þess verður horft til fæðuöflunar og annarra þátta er lúta að viðkomu lundastofnsins.

Í samkomulaginu kemur fram að allir sem að því koma telji einsýnt að veiðar hafi lítil áhrif á viðkomu lundastofnsins og ljóst að skýringa á viðkomubresti þurfi að leita annars staðar. Þá segir að samkomulaginu verði að fylgja eftir með stórauknum rannsóknum á sjófuglum og lífríki Vestmannaeyja­svæðisins. Kemur þar fram áskorun á umhverfisráðuneytið og Náttúrufræðistofnun Íslands um að styðja Þekkingarsetur og Náttúrustofu Suðurlands í aukinni áherslu á rannsóknir á sjófuglum og lífríki Vestmannaeyja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×