Innlent

Beðið eftir endurskoðun

Helga Arnórsdóttir skrifar

Formaður Sjálfstæðisfélagsins í Kópavogi segir að ekkert verði aðhafst í málum er varða greiðslur Kópavogsbæjar til fyrirtækis í eigu dóttur Gunnars I. Birgissonar bæjarstjóra fyrr en niðurstaða endurskoðanda liggi fyrir. Mál sem tengist greiðslum bæjarins til Klæðningar sem var í eigu Gunnars verði þá einnig tekin fyrir. Framsóknarmenn í Kópavogi taka í sama streng. Helga Arnardóttir.

 

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var greint frá því að verktakafyrirtækið Klæðning ehf. sem var í eigu Gunnars I. Birgissonar bæjarstjóra Kópavogs til 2003 hafi fengið greitt frá bænum hátt í 130 milljónir króna fyrir jarðvegsvinnu, gatnagerð og annað á árunum 1997-2001. Gunnar sat í bæjarstjórn á þeim tíma. Þetta kemur fram í opinberum gögnum frá Kópavogsbæ sem Samfylkingin óskaði eftir árin 99-2002.

 

Þá kom einnig fram að Frjáls miðlun í eigu dóttur Gunnars hafi fengið um 70 milljónir króna í greiðslur frá bænum síðustu fjórtán ár. Jóhann Ísberg formaður Sjálfstæðisfélagsins í Kópavogi vildi ekki veita fréttastofu viðtal vegna málsins en segir sjálfstæðismenn í bænum vera ásátta um að beðið verði eftir niðurstöðu endurskoðanda hjá Deloitte sem nú kanni greiðslur bæjarins til Frjálsrar miðlunar.

 

Greiðslur bæjarins til Klæðningar verði rædd samhliða því. Hann segir að Gunnar njóti víðtæks stuðnings meðal sjálfstæðismanna í bænum. Gestur Valgarðsson formaður Framsóknarfélagsins í Kópavogi segir að varast þurfi viðskipti af þessu tagi og þau þurfi að vera hafin yfir allan vafa. Rætt hafi verið innan flokksins að slíta meirihlutasamstarfinu en þeir sjái ekki ástæðu til þess fyrr en niðurstaða endurskoðunar liggi fyrir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×