Innlent

Mikill áhugi á að ljúka Icesave

Viðmælendur Steingríms J. Sigfússonar eru sammála um að Ísland verði áfram í sjálfheldu þar til Icesave-málinu verði lokið.
fréttablaðið/GVA
Viðmælendur Steingríms J. Sigfússonar eru sammála um að Ísland verði áfram í sjálfheldu þar til Icesave-málinu verði lokið. fréttablaðið/GVA

Af viðbrögðum fjármálaráðherra Hollands og Bretlands má ráða að þeir hafi mikinn áhuga á að ljúka Icesave-málinu, segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Hann átti fund með Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, í Istanbúl í Tyrklandi í gær, og hitti Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, stuttlega á sunnudag. Ráðherrarnir eru staddir á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), sem fram fer í borginni næstu daga.

Fundurinn með Bos var góður og gagnlegur, og munu sérfræðingar frá báðum löndum fara yfir lögfræðileg álitaefni sem þar komu fram, segir Steingrímur. Ræddar hafi verið leiðir til að ljúka málinu, en að ekki hafi verið um samningafund að ræða og ekki við því að búast að málið leysist á slíkum fundi.

Steingrímur mun funda með Dominique Strauss-Kahn, aðalframkvæmdastjóra AGS, í dag. Steingrímur segist að sjálfsögðu ætla að gera Strauss-Kahn ljóst að Íslendingar séu afar ósáttir við þær tafir sem orðið hafi á framgangi áætlunar AGS fyrir Ísland vegna alls ótengdra mála.

Steingrímur segir viðmælendur sína á ársfundi AGS almennt sammála um að það sé orðið afar vandræðalegt og pínlegt hversu lengi hafi dregist að endurskoða áætlun AGS fyrir Ísland, og að það mál sé látið stranda á Icesave.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×