Innlent

Sýkingin í síldinni alvarlegri en í fyrra

Sýking í íslensku sumargotssíldinni, sem fundist hefur í Breiðafirði, er alvarlegri en í fyrra og mælir Hafrannsóknastofnunin með veiðibanni. Þetta er mikið áfall fyrir síldveiðiflotann og vinnslufyrirtæki í landi og ljóst að þjóðarbúið verður af milljarðaverðmætum.

Sýking í síldinni setti verulegt strik í veiðarnar í fyrra en síldveiðiflotinn hafði þá tvær vertíðir í röð mokað upp milljarðaverðmætum í innanverðum Breiðafirði. Þegar miklar síldartorfur fundust á ný við Stykkishólm fyrir tíu dögum bundu menn vonir við að síldarævintýri væri aftur að fara í gang en hafa hins vegar beðið milli vonar og ótta eftir niðurstöðum Hafrannsóknastofnunar um hlutfall sýkingar.

Í fyrra reyndust 32 prósent síldarinnar sýkt en staðan er verri nú, að sögn Þorsteins Sigurðssonar, sviðsstjóra nytjastofna hjá Hafrannsóknastofnun. Í þeim sýnum, sem nú hafa verið rannsökuð, eru yfir 40 prósent sýkt. Þorsteinn segir óráðlegt annað, miðað við þessar forsendur, að mæla með veiðibanni. Þegar staðan sé þannig að þriðjungur hafi drepist í fyrra, og annar þriðjungur bætist nú við, sé hætta á að stofninn verði of lítill til að eðlileg nýliðun geti átt sér stað.

Það sem verra er, þetta er ekki skammtímaástand. Mikil sýking í smásíld bendi til þess að menn verði ekki lausir við þennan vanda eftir 1-2 ár heldur komi sýkingin til með að hafa áhrif á nýliðun lengur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×