Innlent

Skilar 115 milljörðum um áramótin

Fylgst með umræðum. Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins í þingsalnum.
fréttablaðið/gva
Fylgst með umræðum. Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins í þingsalnum. fréttablaðið/gva

Verði nýtt frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins um skattlagningu séreignarsparnaðar að lögum renna samtals 115 milljarðar króna til ríkisins og sveitarfélaganna um næstu áramót; 74,6 milljarðar renna til ríkisins og 40,5 milljarðar til sveitarfélaganna.

Næstu ár myndu svo tæpir sjö milljarðar renna árlega í ríkissjóð og tæpir fjórir til sveitar­félaganna.

Skattur er nú greiddur við útgreiðslu séreignarsparnaðar en ekki við greiðslu iðgjalda. Því vilja sjálfstæðismenn breyta til að mæta mikilli fjárþörf hins opinbera. Telja þeir óskynsamlegt að leggja enn þyngri byrðar á atvinnulíf eða einstaklinga í formi skattahækkana eftir þau áföll sem dunið hafa yfir, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu. Þar kemur líka fram að samsvarandi aðgerð gagnvart samtryggingarsjóðum hafi komið til skoðunar en sú leið ekki talin skynsamleg.

Í frumvarpinu er lagt til að lífeyrissjóðunum verði gefinn kostur á og veitt heimild til að gefa út stöðluð skuldabréf til allt að 25 ára til að greiða staðgreiðsluna. Er það gert til að sjóðirnir neyðist ekki til að setja eignasöfn sín á bruna­útsölu með tilheyrandi verðfalli til að mæta skattgreiðslunum. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×