Erlent

Vilja svarta kassa í bíla

Óli Tynes skrifar
Ég veit hvar þú varst síðasta sumar.
Ég veit hvar þú varst síðasta sumar.

Evrópusambandið íhugar að setja reglur um að svokallaðir svartir kassar skuli settir í bíla. Þeir myndu gegna svipuðu hlutverki og flugritar í flugvélum en þaðan er nafnið svarti kassinn komið.

Bílaritarnir myndu skrá allar hreyfingar á bílum, hversu hratt sé ekið, í hvaða gír, hvernig væri beygt og þar frameftir götunum.

Hægt er að tengja kassana við GPS staðsetningartæki þannig að jafnvel væri hægt að sjá hvar bílarnir eru á hvaða tímapunkti.

Yfirvöld gætu svo gengið að þessum upplýsingum þegar þeim hentaði, til dæmis við slys eða árekstra.

Eða ef ástæða þætti til að kanna hvort ökumaður væri að segja satt um hvar hann hafi verið á einhverjum tímapunkti. Þannig væri til dæmis hægt að láta reyna á fjarvistarsannanir.

Þarna er þó aðeins verið að tala um tæknilega mögulega ekki liggur fyrir að öll þessi atriði verði í lögum ef af þeim þá verður yfirleitt.

Hroll hefur sett að mannréttindasamtökum við þessar vangaveltur. Þau telja þarna seilst vel inn í einkalíf fólks.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×