Lífið

Tónleikaferðin gekk framar vonum

Hljómsveitin lýkur tónleikaferð sinni um Evrópu í Coventry í kvöld.
Hljómsveitin lýkur tónleikaferð sinni um Evrópu í Coventry í kvöld.

Tónleikaferð hljómsveitarinnar Hjaltalín um Evrópu lýkur í ensku borginni Coventry í kvöld. Söngkonan Sigríður Thorlacius segir að ferðin hafi gengið framar vonum. „Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt og það er eiginlega búið að vera skemmtilegt alls staðar. Það var mjög gaman í Þýskalandi og líka á Eurosonic í Hollandi,“ segir Sigríður.

Eurosonic er einnig nokkurs konar viðskiptaráðstefna þar sem hljómsveitir mynda sambönd við útgefendur og aðra aðila úr tónlistarbransanum. Sigríður viðurkennir að einhver plötufyrirtæki hafi sýnt hljómsveitinni áhuga, auk þess sem bókanir á tónlistarhátíðir hafi komið til tals. Þær viðræður séu þó allar á byrjunarstigi.

Tónleikaferðin er sú stærsta hjá Hjaltalín til þessa og hefur sveitin spilað hvern einasta dag síðan förin hófst í Kaupmannahöfn 8. janúar. „Við höfum verið að spila á misjafnlega stórum stöðum. Sumir eru mjög litlir eins og í Brighton þar sem við spiluðum fyrir 120 manns. Það var alveg troðið. Í París var líka fullur staður þar sem við spiluðum fyrir fimm hundruð manns,“ segir Sigríður.

Hjaltalín kemur heim til Íslands á morgun og heldur síðan aftur út í febrúar í aðra tónleikaferð. Þá verður meðal annars spilað á norsku By:Larm-hátíðinni, í París, Skandinavíu og hugsanlega í Þýskalandi. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.