Innlent

Sauðfjárbóndi býður sig fram fyrir Framsóknarflokkinn

Sindri Sigurgeirsson.
Sindri Sigurgeirsson.

Sindri Sigurgeirsson 34 ára gamall sauðfjárbóndi í Bakkakoti í Borgarbyggð og stundakennari við búfræðibraut Landbúnaðarháskóla Íslands ætlar að bjóða sig fram í prófkjöri Framsóknarflokksins.

Í tilkynningu frá Sindra kemur fram að hann stefni á annað sætið í Norðvesturkjördæmi á lista flokksins í komandi alþingsikosningum. Hann segist þegar hafa tilkynnt formanni stjórnar kjördæmaráðs um þessa ákvörðun sína.

Sindri segist hafa brennandi áhuga á að taka þátt í uppbyggingu íslensks samfélags með réttlæti, sanngirni og jafnrétti að leiðarljósi. Hann segist vera sérstakur áhugamaður um sterka landsbyggð og eflingu sjávarútvegs og landbúnaðar.

„Ný forysta Framsóknarflokksins, endurnýjun á framboðslistum og stefnumótun sem byggð er á heiðarleika og réttsýni sýnir að flokkurinn er reiðubúinn að takast á við þær miklu áskoranir sem fylgja uppbyggingarstarfinu framundan. Ég býð fram mína krafta til að taka þátt í því," segir í tilkynningunni.

„Ég er 34 ára gamall og er sauðfjárbóndi í Bakkakoti í Borgarbyggð og stundakennari við búfræðibraut Landbúnaðarháskóla Íslands. Auk þess hef ég undanfarin tvö ár stundað nám í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst, en hef áður lokið námi við frumgreinadeild sama skóla og búfræðinámi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Maki er Kristín Kristjánsdóttir bóndi og skólaritari við Varmalandsskóla. Við eigum tvö börn, 9 og 12 ára."






Tengdar fréttir

Magnús gefur ekki kost á sér áfram

Magnús Stefánsson þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvestur kjördæmi hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til framboðs í komandi alþingiskosningum. Magnús var fyrst kosinn á þing fyrir fjórtán árum og hefur meðal annars gegnt ráðherraembætti. Guðmundur Steingrímsson sem nýlega gekk í flokkinn hefur lýst því yfir að hann stefni á fyrsta sætið í kjördæmi Magnúsar.

Fleiri í framboð hjá framsókn

Hallur Magnússon framkvæmdarstjóri Spesíu, ráðgjafafyrirtækis, hefur ákveðið að bjóða sig fram í eitt af efstu sætum Framsóknarflokksins í öðru hvoru kjördæminu. Hann segir fjölmarga hafa komið til sín undanfarið og hvatt sig til þess að fara fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×