Enski boltinn

Capello vill HM heim árið 2018

NordicPhotos/GettyImages

Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englendinga í knattspyrnu, segir vel við hæfi að halda HM í knattspyrnu árið 2018 á Englandi.

Englendingar eru í hópi ellefu þjóða sem sýnt hafa áhuga á að halda þennan risaviðburð árið 2018 og telja veðbankar líklegt að þeir hreppi hnossið þó þeir muni fá harða samkeppni frá Rússum og svo Spánverjum og Portúgölum sem bjóða fram saman.

HM hefur ekki verið haldið á Englandi síðan árið 1966 þegar Englendingar urðu einmitt heimsmeistarar á heimavelli í fyrsta og eina skiptið í sögulegri keppni.

"Ég held að England væri frábært land fyrir HM. Vellirnir eru í fínu lagi og fólkið er frábært, svo ég held að sé tímabært að halda keppnina hérna á ný. England er fæðingarstaður fótboltans og ég held að sé kominn tími til að fá fótboltann heim á ný," sagði Capello.

Þjóðirnar sem sótt hafa um að halda HM 2018 eru England, Rússland, Spánn/Portúgal, Holland/Belgía, Bandaríkin, Mexíkó, Ástralía, Japan, Katar, Suður-Kórea og Indónesía.

Fifa hefur gefið það út að lönd sem sækja um árið 2018 komi ekki til greina við umsóknir í keppnina 2022 ef land úr sömu álfu hreppir hnossið 2018.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×