Erlent

Árásin á krikketliðið svipar til ódæðisins í Mumbai

Gert að sárum fórnarlambs árásarinnar.
Gert að sárum fórnarlambs árásarinnar. MYND/AP
Sex manns biðu bana og fjölmargir særðust í þaulskipulagðir árás á krikkettlið frá Sri Lanka sem mætti til keppni í Pakistan í dag. Árásin minnti um margt á hryðjuverkaárásina í Mumbai í Indlandi.

Krikketlið Sri lanka var að koma í tveim rútum að Gaddafi leikvanginumm í Lahore þegar hryðjuverkamennirnir létu til skarar skríða. Þeir voru vopnaðir hríðskotarifflum eldflaugum og handsprengjum sem þeir létu rigna yfir rúturnar tvær.

Árásin var greinilega þaulskipulögð. Árásarmennirnir voru einir tólf talsins og þeir réðust á rúturnar úr fjórum áttum.  Þetta þykir minna óþægilega á árásina í Múmbaí í Indlandi þar sem tæplega tvöhundruð manns féllu í valinn í nóvember á síðasta ári.

Fimm lögreglumenn og bílstjóri annarrar rútunnar biðu bana og margir særðust, þar á meðal leikmenn krikkett liðsins.

Pakistanska lögreglan er sögð hafa handtekið fjóra menn eftir árásina en ekki er enn vitað hverjir þeir voru eða hvaðan þeir komu.

Ýmis hryðjuverkasamtök eru starfandi innan Pakistans. Hinsvegar er einnig möguleiki á að Tamíl tígrar frá Sri Lanka hafi verið þarna að verki. Þeir hafa áratugum saman barist fyrir sjálfstæðu ríki sínu í landinu, en eiga nú mjög undir högg að sækja heimafyrir eftir stórsókn stjórnarhersins gegn þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×